Lög félagsins

Hér að neðan er að finna lög félagsins með breytingum.

Lög Skotíþróttafélags Suðurlands

1. gr.
Nafn félagsins er Skotíþróttafélag Suðurlands, skammstafað S.F.S og er heimili þess og varnarþing í Árnessýslu.

2. gr.
Tilgangur félagsins er þessi:
1. Að vinna að eflingu skotíþróttarinnar.
2. Að koma upp sem bestri aðstöðu til skotiðkunar fyrir félagsmenn
3. Að kenna meðferð skotvopna og vinna gegn ógætilegri notkun þeirra.
4. Að gæta hagsmuna félagsmanna og standa vörð um þau grundvallarréttindi skotíþróttamanna að þeim sé heimilt að eiga og nota þau skotvopn sem ætluð eru til hverskonar íþróttaiðkunar í heiminum.

3. gr.
Félagar geta allir orðið sem óska aðildar með skriflegri umsókn, enda samþykki stjórnin umsókn á fundi sínum. Stjórninni er heimilt að vísa inntökubeiðnum til ákvörðunar félagsfundar.

4. gr.
Félagsmenn skulu greiða árgjald til félagsins og skal upphæð þess ákveðin á aðalfundi.
Gjaldagi árgjalda er 15. apríl og greiðist þá árgjald fyrir það ár.
Auk árgjalds skal hver nýr félagsmaður greiða inntökugjald sem ákveðið skal á aðalfundi og skal inntökugjaldið greitt um leið og inntökubeiðni er lögð fram. Nýr félagsmaður skal ekki greiða inntökugjald og ekki árgjald fyrr en á sínu 16. ári. Nýr félagsmaður þarf ekki að greiða inntökugjald sé maki hans fyrir í félaginu.
Greiði félagsmaður ekki árgjald innan tveggja mánaða frá útgáfu innheimtuseðla og eigi jafnframt ógreitt árgjald sitt frá fyrra ári, skal taka hann af félagaskrá, nema meirihluti stjórnar ákveði annað með hliðsjón af sérstökum aðstæðum.
Hafi félagsmaður ekki greitt áfallið árgjald sitt fyrir aðalfund missir hann atkvæðisrétt og kjörgengi á þeim fundi ásamt öðrum félagsréttindum.
Hafi félagsmaður verið langdvölum utan félagssvæðis, er stjórninni heimilt að fella niður árgjald hans.
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og miðast við áramót.

5. gr.
Enginn félagsmaður á tilkall til hluta af eignum félagsins, þó hann hverfi úr félaginu eða félaginu verði slitið.
Enginn félagsmaður ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðru en gjöldum sínum.

6. gr.
Félagið starfar samkvæmt reglum Skotíþróttasambands Íslands (STÍ) og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Stjórn getur þó sett sérstakar reglur um innanfélagsmót og skapað aðstöðu til æfinga í skotíþróttum sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar.

7. gr.
Stjórn félagsins skal setja reglur um keppnisverðlaun og leita umsagnar HSK og staðfestingar STÍ á reglum þessum.

8. gr.
Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.
Í varastjórn skal kjósa tvo menn. Hver maður í stjórn og varastjórn skal kosinn sérstaklega. Formaður er kosinn til eins árs, en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára.

9. gr.
Stjórn félagsins heldur fundi svo oft sem þörf krefur og ræður afl atkvæða. Stjórnarfundur er löglegur ef fjórir stjórnarmenn eru mættir, þar með formaður eða varaformaður, enda hafi allir stjórnarmenn verið boðaðir til fundarins.
Formaður eða sá sem hann ákveður, skal boða til stjórnarfunda. Fundurinn er lögmætur ef til hans er boðað samkvæmt starfsvenjum stjórnar sem ákveðnar skulu á fyrsta fundi nýrrar stjórnar.
Ef brýna nauðsyn ber til getur stjórnarmaður krafist þess að stjórnarfundur verði haldinn og skal þá til hans boðað innan sólarhrings frá því formanni barst um það krafa.

10. gr.
Stjórnin hefur á hendi allar framkvæmdir félagsins á milli aðalfunda.
Stjórnin skiptir með sér verkefnum og ákveður starfstilhögun hverju sinni. Stjórnin getur tekið launaða aðstoð og fær greidd bein útgjöld, en sjálf vinnur hún launalaust.

11. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í marsmánuði ár hvert og skulu reikningar félagsins tilbúnir til endurskoðunar viku fyrir aðalfund og skal reikningsár vera almanaksárið.
Til almennra félagsfunda skal boðað þegar þörf þykir að dómi meirihluta stjórnar, eða þegar minnst 25 félagsmenn óska þess skriflega og tilgreina fundarefni.
Aðalfund og félagsfund skal boða bréflega með a.m.k. viku fyrirvara. Á félagsfundum má gera ályktanir, samþykkja áskoranir til stjórnar o.s.frv., en ekki afgreiða nein mál sem heyra undir aðalfund, samkvæmt lögum þessum. Í fundarboði skal greina frá fundarefni.
Stjórn skal halda félagsfund ekki síðar en 30 dögum frá því henni barst um það beiðni, samkvæmt 2. málsgrein.

12. gr.
Aukaaðalfund má halda ef meirihluti stjórnar telur nauðsynlegt og skal til hans boðað með sama hætti og aðalfundar, enda sé fundarefni tilgreint í fundarboði.

13. gr.
Tillögur til lagabreytinga skal afhenda stjórn félagsins fyrir 1. febrúar og birtir stjórnin félagsmönnum þær með fundarboði. Ekki verða greidd atkvæði um aðrar tillögur til lagabreytinga en þær sem birtar eru með fundarboði og breytingartillögur við þær.

14. gr.
Á aðalfundi skal stjórn félagsins gefa skýrslu um starfsemi félagsins á liðnu starfsári og leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins sem legið hafa frammi til athugunar á þeim stað sem stjórnin ákveður, í eina viku fyrir aðalfund.

15. gr.
Þessi eru störf aðalfundar:
1) Fundarsetning.
2) Fundarstjóri kosinn.
3) Fundarritari kosinn.
4) Fundargerð síðasta aðalfundar lesin.
5) Skýrsla stjórnar.
6) Nefndir gera grein fyrir störfum sínum.
7) Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.
8) Umræður um skýrslur. Afgreiðsla reikninga.
9) Árgjald ákveðið.
10) Lagabreytingar.
11) Stjórnarkosning samkvæmt 8. gr.
12) Kosning formanna fastanefnda.
13) Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.
14) Kjör fulltrúa á þing HSK. og STÍ og jafn marga til vara.
15) Önnur mál.
16) Fundargerð lesin.
17) Fundarslit.
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum, nema um lagabreytingar sé að ræða, en þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Aðalfundur getur með 2/3 atkvæða viðstaddra leyft að taka fyrir mál, sem komið er fram, eftir að dagskrá fundarins var auglýst.

16. gr.
Stjórn félagsins skal setja reglur um æfingatíma, ásamt sérstökum reglum um öryggi og umgengni á æfingasvæðum félagsins og er félagsmönnum skylt að hlíta þeim.

17. gr.
Fastanefndir félagsins eru þessar:
Haglabyssunefnd, rifflanefnd, silouttunefnd og skammbyssunefnd.
Þá skal starfa aganefnd sem fjallar um meint agabrot félagsmanna.
Aðalfundur kýs formenn fastanefnda félagsins. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skipar hún nefndarmenn að fengnum tillögum formanns.
Stjórn er heimilt að skipa aðrar nefndir sér til aðstoðar.
Hver nefndarformaður skal skila skýrslu til stjórnar um starfsemi viðkomandi nefndar, ekki síðar en viku fyrir aðalfund.

18. gr.
Félaginu verður ekki slitið nema á lögmætum aðalfundi með minnst samþykki 3/4 hluta atkvæða og skal tillaga um það koma fram í fundarboði. Sé samþykkt að leggja félagið niður, skal boða til aukaaðalfundar til að staðfesta niðurstöðuna. Ef til félagsslita kemur renna eignir félagsins til H.S.K.

19. gr.
Stjórn félagsins skal skila STÍ skýrslu um innanfélagsmót, samanber lög og reglur HSK.

20. gr.
Að öðru leyti vísast til áhugamannareglna ÍSÍ og HSK.

Lög þessi voru samþykkt stofnfundi félagsins 11. apríl 1989.
Breytt á aðalfundi 20. apríl 1999, 31. mars 2000 og 26. mars 2002.


Comments are closed.

Aftur upp ↑

'